Lög Gæðingadómarafélags L.H
1. gr
Nafn félagsins er Gæðingadómarafélag L.H. skammstafað G.D.L.H.
2. gr
Markmið félagsins er:
a. að vera málsvari félagsmanna, gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart viðsemjendum.
b. að stuðla að góðri menntun og þjálfun dómara.
c. Að stuðla að bættum gæðum í vinnu dómara, m.a. með endurmenntun og eftirliti með störfum þeirra. t.d. að sjá til þess að dómurum sé ávallt tryggð sem best starfsaðstaða.
3. gr
Gæðingadómarar skiptast í tvo flokka:
a. félagsdómara.
b. landsdómara.
4. gr
Lágmarksaldur félagsdómara er 21 ár.
Félagsdómarar hafa rétt til að dæma öll almenn hestamót, þó ekki landsmót.
Nýdómarar sem að lokið hafa námskeiði á vegum GDLH og staðist próf skulu rita tvö lögleg mót með landsdómara til þess að útskrifast með réttindi Félagsdómara.
Landsdómarar einir hafa rétt til að dæma á landsmótum og vera leiðbeinendur á námskeiðum félagsins um dómaramál.
Til að hljóta landsdómararéttindi skal félagsdómari hafa dæmt í minnst fimm ár og ásamt því að hafa dæmt að lágmarki dæmt tíu lögleg gæðingamót þar sem boðið er upp á alla flokka utan c-flokka og gæðingatölts og staðist próf sem fræðslunefnd G.D.L. H. heldur.
5. gr
Félagsmenn eru allir gæðingadómarar sem hlotið hafa samþykkt stjórnar L.H. Félagsmenn sem ekki standast upprifjunarnámskeið í byrjun starfsárs, eru ekki löglegir til dómstarfa það árið. Sæki dómari ekki upprifjunarnámskeið í tvö ár samfellt þarf hann að endurnýja réttindi sín með stöðuprófi, ef það líður lengri tími en þrjú ár frá því að dómari mæti á upprifjunarnámskeið falla dómararéttindi hans niður. Dómari þarf að dæma a.m.k. tvö lögleg mót á þremur árum til að viðhalda sannarlega réttindum sínum.
6. gr
Eftirfarandi siðareglur gilda um gæðingadómara:
a) Gæðingadómarar skulu jafnan koma til starfa það tímanlega, að þeir geti kynnt sér vallarskilyrði og annan umbúnað.
b) Gæðingadómarar skulu jafnan leggja metnað í störf sín og gæta ýtrustu sanngirni og óhlutdrægni í störfum og dæma eftir sinni bestu sannfæringu og í samræmi lög og reglur L.H.
c) Gæðingadómarar skulu ávallt gæta orða sinna gagnvart knöpum og hestum, sem þátt taka í móti, á meðan keppni stendur.
d) Gæðingadómarar skulu koma fram af fyllstu kurteisi. Sýni dómari vítaverða framkomu gagnvart keppendum eða áhorfendum, hefur yfirdómnefnd heimild til að víkja honum frá störfum og kalla til varadómara.
e) Gæðingadómarar skulu sýna hver öðrum tilhlýðilega virðingu og tillitsemi.
f) Gæðingadómarar skulu ekki vera undir áhrifum áfengis né neyta þess meðan þeir starfa að dómum.
g) Gæðingadómarar skulu ávallt hafa slökkt á farsímum sínum á meðan þeir eru við dómstörf.
h) Gæðingadómarar, sem án gildrar ástæðu mæta ekki til starfa og tilkynna ekki forföll, eiga á hættu að missa dómararéttindin, í allt að sex mánuði. . Sama gildir ef dómari sýnir vítaverða framkomu gagnvart keppendum eða áhorfendum.
7. gr
Félagið starfi innan vébanda L.H. og eigi fulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á þingum þess. Formaður skal vera fulltrúi félagsins á þingi L.H. eða skipa annan í sinn stað.
8. gr
Aðalfund skal halda árlega í október- nóvember. Hann skal auglýsa í víðlesnum fjölmiðli með minnst 14 daga fyrirvara.
Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Allar tillögur um lagabreytingar skulu kynntar með aðalfundarboði. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir fullgildir gæðingadómarar sem eru skuldlausir við félagið.
Stjórn félagsins er heimilt að bjóða öðrum aðilum að sitja aðalfund G.D.L.H. með málfrelsi og tillögurétti. Reikningstímabil er milli aðalfunda.
Verkefni aðalfundar eru:
- fundur settur
- kjör fundarstjóra og ritara
- fundargerð síðasta aðalfundar
- skýrsla stjórnar og reikningar
- skýrslur nefnda
- lagabreytingar
- ákvörðun félagsgjalda
- kosning stjórnar og nefnda
- önnur mál
- fundi slitið
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi, formaður sérstaklega til eins árs og fjórir meðstjórnendur til tveggja ára, tveir og tveir í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kosnir skulu tveir varamenn til eins árs. Tveir skoðunarmenn skulu kosnir á aðalfundi og tveir til vara. Stjórnin annast almenna stjórn félagsins milli aðalfunda og gætir laga og reglna sem gilda hverju sinni. Stjórnin skal sjá um að framkvæma samþykktir aðalfundar. Stjórn skal boða til dómararáðstefnu á hverju hausti. Stjórn er heimilt að boða til félagsfunda milli aðalfunda ef ástæða þykir til.
Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef 1/3 félagsmanna óska þess skriflega.
Stjórn skal fyrir 1. maí ár hvert senda stjórn L.H. skrá yfir starfandi gæðingadómara.
10. gr
Gæðingadómari skal fá greitt tímakaup fyrir störf sín. Mótshaldarar skulu sjá dómara fyrir fæði eða fæðispeningum og gistingu ef þörf er á. Fyrir notkun á eigin bifreið skal
gæðingadómara greitt ákveðið gjald á hvern ekinn kílómetra. Gjaldskrá skal ákveðin á aðalfundi. Gæðingadómarar skulu ekki ferðast á fleiri bifreiðum en nauðsyn krefur.
11. gr
Tekjur félagsins eru:
árgjöld félaga
aðrar tekjur sem til falla
12. gr
Gjöld félagsins eru:
kostnaður vegna stjórnar svo sem ferða-, síma- og póstkostnaður
kostnaður vegna félags- og aðalfunda
kostnaður vegna námskeiða og námsefnis
annar kostnaður sem samþykktir og félagsstarf leiða til
13. gr
Stjórnin skipar fimm manna fræðslunefnd. Fræðslunefnd, sem skipuð er landsdómurum, hefur umsjón með menntun og þjálfun gæðingadómara. Skal hún sjá um að haldin séu upprifjunar- og endurmenntunarnámskeið á a.m.k. tveim stöðum á landinu fyrir 25. apríl ár hvert. Hún metur árangur gæðingadómara. Leggur hún til námsefni og leiðbeinendur á námskeið þessi svo tryggt sé að samræmi sé í dómsstörfum á landinu öllu. Sama gildir um nýdómaranámskeið og landsdómaranámskeið. Fræðslunefnd vinnur í nánu samstarfi við dómaranefnd L.H. sem hefur yfirumsjón og eftirlit með menntun dómara.
14. gr
Félagið getur gerst þátttakandi í samstarfi félaga á skyldum starfsvettvangi. Eigi G.D.L.H. fulltrúa á fundum eða í stjórnum slíkra samtaka skal kjósa þá sérstaklega á aðalfundi eins og aðra starfsmenn.
15. gr
Stjórn félagsins skal taka ákvarðanir um viðbrögð við brotum á lögum þessum. Stjórninni er heimilt að áminna félagsmenn fyrir brot gegn lögum og reglum félagsins, auk þess sem henni er heimilt að afturkalla dómararéttindi félagsmanns sem fullnægir ekki ákvæðum laga þessarra. Stjórninni er ávallt heimilt að skjóta málum til Aganefndar L.H.
16. gr
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi og því aðeins að 2/3 hlutar greiddra atkvæða mættra fundarmanna samþykki breytinguna. Tillögur til lagabreytingar skulu hafa borist stjórn fyrir 1.október.
17. gr
Verði félagið lagt niður færast verkefni og eignir þess til L.H.